Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal játaði sig sigraðan í baráttunni um enska meistaratitilinn eftir tapið gegn Englandsmeisturum Manchester United á Old Trafford í dag.
„Við erum úr leik. Ég er samt stoltur af mínum mönnum. Þeir sýndu góðan leik og börðust hetjulega. Við fengum fullt af færum og við vorum óheppnir að fara ekki með sigur af hólmi,“ sagði Wenger við Sky Sports eftir leikinn en lið hans hafði fimm stiga forskot á toppnum í byrjun febrúar.
„Síðustu tvo mánuði höfum við ekki verið heppnir og þið sáuð það hér í dag. Ég tel að það lið sem ég er með í höndunum hafi verið nægilega gott til að vinna titilinn og ég er ekki sammála því að breiddin sé ekki nógu mikil hjá okkur. Nú er okkar helsta markmið að halda þessu liði saman,“ sagði Wenger.