Benítez lætur óvissuástandið hjá eigendum Liverpool ekki hafa áhrif á sig

Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool.
Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool. Reuters

Liverpool er á góðu skriði þessa dagana og átti ekki í miklum vandræðum með að klára Blackburn Rovers í gær með þremur mörkum gegn einu.

Tónninn í stuðningsmönnum Liverpool var ekki góður fyrr á leiktíðinni, þegar allt gekk á afturfótunum og öll spjót stóðu á Rafael Benítez, stjóra liðsins. Eftir góðan sigur á Arsenal í Meistaradeildinni og fínan árangur að undanförnu í deildinni hefur sá tónn breyst.

Markaþurrð var í leiknum þar til eftir klukkutíma leik, en þá prjónaði Steven Gerrard sig í gegnum vörn Blackburn eftir góðan þríhyrning við Lucas Leiva, og skoraði fyrsta mark leiksins og jafnframt ellefta mark fyrirliðans í deildinni á leiktíðinni.

Spænska markamaskínan Fernando Torres kom Liverpool svo í 2:0 með góðu skallamarki eftir sendingu frá Steven Gerrard, sjö mínútum fyrir leikslok. Torres var svo skipt af leikvelli fyrir Úkraínumanninn Andrey Voronin, sem þakkaði traustið og skoraði þriðja mark Liverpool á síðustu mínútu leiksins eftir góðan undirbúning frá John Arne Riise, sem einnig hafði komið inn á sem varamaður og það aðeins einni og hálfri mínútu áður en þriðja markið leit dagsins ljós.

Blackburn náði að laga stöðu sína örlítið í uppbótartíma þegar Roque Santa Cruz skoraði með laglegu skoti innan vítateigs framhjá Jose Reina í marki Liverool.

Góð innkoma hjá Benayoun

„Við vissum að eftir erfiðan leik við Arsenal í Meistaradeildinni í vikunni yrði erfitt að stilla sig vel fyrir leik gegn góðu liði eins og Blackburn. En með harðri vinnu tókst okkur að vinna þennan leik. Steven Gerrard og Fernando Torres áttu báðir góðan leik í dag, enn einu sinni. Hins vegar fannst mér innkoma Yossi Benayoun hrista vel upp í liðinu í dag og fyrir mér var hann lykilmaður hjá okkur að þessum sigri. Hann átti til að mynda stóran þátt í fyrsta markinu,“ sagði Rafael Benítez, stjóri Liverpool. Þrátt fyrir fínt gengi liðsins að undanförnu eru háværar deilur á bakvið tjöldin milli eigenda liðsins og stjórnarformannsins. Benítez segist ætla að óska eftir skýringum á því sem fyrst.

Torres kominn með 30 mörk

Fernando Torres gerði sitt þrítugasta mark fyrir Liverpool á leiktíðinni í leiknum, þar af eru deildarmörkin 22 talsins. Benítez segir þá frammistöðu vera framar vonum.

„Ég held að allir hafi gert ráð fyrir því að Torres myndi skora fimmtán til tuttugu mörk á leiktíðinni. En nú er hann kominn með 30 mörk. Það er frábært fyrir hann og fyrir klúbbinn.

Við höfum haft góða trú á því að klára deildina í Meistaradeildarsæti. Staða okkar er vænleg núna en við munum gera allt sem við getum til að halda góðum mun í stigatöflunni milli okkar og Everton,“ sagði hinn spænski Rafael Benítez.

Í hnotskurn
» Fernando Torres hefur nú skorað 30 mörk á leiktíðinni, þar af eru 22 mörk í ensku deildinni.
» Stephen Warnock lék með Blackburn í leiknum, en hann er uppalinn í unglingastarfi Liverpool. Var þetta fyrsti leikur Warnock á Anfield síðan hann fór frá Liverpool til Blackburn.
» Fimm stigum munar nú á erkifjendunum Liverpool og Everton í baráttunni um Meistaradeildarsæti þegar fjórar umferðir eru eftir af deildinni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert