Stoke á toppnum

Tony Pulis knattspyrnustjóri Stoke City.
Tony Pulis knattspyrnustjóri Stoke City. Reuters

Gamla Íslendingaliðið Stoke City, sem sjálfsagt margir Íslendingar bera þó enn sterkar taugar til, sigraði Coventry City á útivelli á laugardag. Stoke trónir nú á toppi 1. deildarinnar í Englandi með 72 stig þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni. Raunar á WBA leik til góða, en liðið situr í öðru sæti, einu stigi á eftir Stoke.

Fyrstu tvö sætin í 1. deildinni veita keppnisrétt í úrvalsdeildinni næsta keppnistímabil, en liðin sem hafna í þriðja til sjötta sæti keppa í úrslitakeppninni um þriðja lausa sætið í úrvalsdeildinni.

Stoke er þegar öruggt með að komast í úrslitakeppnina. Liðið gæti þó tekið stórt skref í átt að öruggu sæti í úrvalsdeildinni á komandi leiktíð vinni þeir Bristol City næsta laugardag, en Bristol City er í þriðja sæti 1. deildarinnar með 71 stig, einu stigi minna en Stoke hefur.

Spennandi lokasprettur

Í síðustu tveimur leikjunum leikur svo Stoke við Colchester, sem er þegar fallið um deild og Leicester City, sem er í harðri baráttu um að halda sæti sínu í deildinni.

Það verður því spennandi að fylgjast með lokaspretti 1. deildarinnar, hvort gamla Íslendingafélagið muni loks leika í deild hinna bestu á Englandi á komandi leiktíð.

Stoke var síðast í efstu deild á Englandi leiktíðina 1984-1985 og þá fékk liðið aðeins 17 stig sem á þeim tíma var met. Það met stóð í 21 ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert