Swansea í 1. deildina eftir 24 ára fjarveru

Roberto Martinez knattspyrnustjóri Swansea er kominn með lið sitt uppí …
Roberto Martinez knattspyrnustjóri Swansea er kominn með lið sitt uppí 1. deild. www.swanseacity.co.uk

Velska knattspyrnuliðið Swansea City tryggði sér um helgina sæti í ensku 1. deildinni í knattspyrnu, eftir að hafa leikið í tveimur neðri deildunum undanfarin 24 ár.

Sigur á útivelli gegn Gillingham, 2:1, gulltryggði Walesbúunum 1. deildarsætið en með honum náðu þeir tíu stiga forskoti á Doncaster, sem er í þriðja sætinu.

Swansea er með 86 stig, Carlisle 79, Doncaster 76, Nottingham Forest 73 og Southend 72 stig þegar þremur umferðum er ólokið en hin fjögur liðin bítast um að fylgja Swansea beint uppí 1. deildina. Liðin í þriðja til sjötta sæti fara síðan í umspil um eitt sæti en Leeds er nú í sjötta sætinu með 67 stig.

„Stuðningsmenn okkar verðskulda 1. deildarsætið mest allra því þeir hafa þurft að þola margt undanfarin 24 ár. Vissulega hafa komið góðar stundir inná milli en saga okkar frá því við duttum útúr efstu deild á sínum tíma hefur aðallega einkennst af vonbrigðum," sagði Huw Jenkins, stjórnarformaður Swansea, á vef félagsins í dag.

Knattspyrnustjóri Swansea er spænskur, Roberto Martinez, og hann er með þrjá landa sína í hópnum en annars eru heimamenn, Walesbúar, fjölmennastir í leikmannahópi liðpsins, ásamt Englendingum.

Swansea gekk á sínum tíma í gegnum eitt mesta ævintýrið í ensku knattspyrnunni. Vorið 1975 varð liðið í þriðja neðsta sæti 4. deildar (sem samsvarar 3. deild í dag), en árið 1981 var Swansea komið í efstu deild og hafði þá farið upp um þrjár deildir á fjórum árum. Ekki nóg með það, heldur var liðið í toppbaráttunni tímabilið 1981-1982 og endaði í 6. sæti.

En sælan var skammvinn, Swansea féll aftur úr efstu deild vorið 1983 og síðan var brautin bein því á þremur árum féll liðið alla leið niður í 4. deildina á nýjan leik og var komið þangað árið 1986.

Þar með er ljóst að tvö lið frá Wales verða í 1. deildinni á næsta ári. Cardiff er þar fyrir og er á leið í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar. Þriðja velska liðið í ensku deildakeppninni á ekki jafn góðu gengi að fagna. Wrexham situr á botni 3. deildar og þarf kraftaverk til að forðast fall útúr deildakeppninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert