Wigan jafnaði í uppbótartíma á Stamford Bridge

Nicolas Anelka, sóknarmaður Chelsea, og Paul Scharner, varnarmaður Wigan, í …
Nicolas Anelka, sóknarmaður Chelsea, og Paul Scharner, varnarmaður Wigan, í baráttu í leiknum í kvöld. Reuters

Chelsea og Wigan skildu jöfn, 1:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Stamford Bridge í kvöld. Þar með blasir meistaratitillinn við Manchester United sem er með fimm stiga forystu þegar fjórum umferðum er ólokið.

Manchester United er með 80 stig en Chelsea er í öðru sæti með 75 stig. Liðin eiga eftir að mætast á Stamford Bridge en ljóst er að Manchester United þarf að tapa honum og öðrum leik til viðbótar til að missa meistaratitilinn úr höndum sér.

Michael Essien kom Chelsea yfir á 55. mínútu með hörkuskoti rétt utan vítateigs. Joe Cole sendi fyrir mark Wigan frá vinstri og Nicolas Anelka gaf boltann á Essien.

Wigan fékk upplagt færi til að jafna metin á 88. mínútu en Petr Cech, sem lék á ný í marki Chelsea, varði glæsilega frá Antoine Sibierski.

Chris Kirkland, markvörður Wigan, varði nokkrum sinnum mjög vel í leiknum, m.a. skalla frá Nicolas Anelka í fyrri hálfleik og skot frá Michael Essien í uppbótartíma.

Þegar hálf önnur mínúta var komin framyfir leiktímann jafnaði Emile Heskey fyrir Wigan, 1:1, með viðstöðulausu skoti eftir fyrirgjöf Jasons Koumas frá vinstri.

Frank Lampard, miðjumaður Chelsea og enska landsliðsins, þurfti að hætta við þátttöku í leiknum á síðustu stundu vegna fjölskylduástæðna, en hann var byrjaður að hita upp þegar hann þurfti að hætta við og hverfa á braut.

Lið Chelsea: Cech - Belletti, Alex, Terry, Bridge - Ballack, Essien, Obi - Kalou, Anelka, Malouda.
Varamenn: Hilario, Shevchenko, J. Cole, Pizarro, Wright-Phillips.

Lið Wigan: Kirkland - Melchiot, Scharner, Boyce, Kilbane - Valencia, Skoko, Palacios, Taylor - Heskey, Bent.
Varamenn: Pollitt, Sibierski, Koumas, Brown, King.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert