WBA og Hull unnu í kvöld mikilvæga útisigra í ensku 1. deildinni í knattspyrnu og skutust með því bæði uppfyrir Stoke City og í tvö efstu sætin í deildinni. Fyrrum ÍR-ingur skoraði mikilvægt mark fyrir Hull.
WBA lagði Wolves í nágrannaslag á útivelli, 1:0, og vonir Úlfanna um að komast í umspilið um sæti í úrvalsdeildinni minnkuðu því nokkuð. Ungverjinn Zoltán Gera skoraði sigurmarkið. WBA er nú langlíklegast til að fara upp í úrvalsdeildina en auk þess að vera komið með tveggja stiga forystu í deildinni er liðið með langbestu markatöluna.
Hull City hefur komið gífurlega á óvart og verið á mikilli siglingu undanfarnar vikur. Liðið hefur nú fengi sextán stig í síðustu sex leikjum sínum og á nú virkilega góða möguleika á úrvalsdeildarsætinu.
Ian Ashbee, sem lék með ÍR í 1. deildinni á Íslandi árið 1996, skoraði eitt markanna í kvöld þegar Hull lagði Barnsley á útivelli, 3:1. Ashbee er nú fyrirliði Hull og lykilmaður í varnarleik liðsins en hann var í láni hjá ÍR frá Derby County umrætt sumar. Dean Marney og Dean Windass gerðu hin tvö mörkin.
Hull hefur aldrei í 104 ára sögu sinni leikið í efstu deild ensku knattspyrnunnar og besti árangur félagsins er þriðja sæti í næstefstu deild árið 1910. Þá missti félagið af því á markatölu að fara upp úr gömlu 2. deildinni.
WBA er með 74 stig á toppnum þegar þremur umferðum er ólokið, Hull er með 72 stig, Stoke City 72, Bristol City 71 og Watford 69 stig en ljóst er orðið að tvö þessara liða komast beint uppí úrvalsdeildina.