Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, var mjög ánægður með seinni hálfleikinn hjá sínum mönnum gegn Blackburn í ensku úrvalsdeildinni í gær. Leikurinn endaði 1:1 en Ferguson sagði að lið sitt hefði verðskuldað að sigra.
„Við vildum frekar fá stigin þrjú og hefðum verðskuldað þau. En frammistaðan í seinni hálfleik var stórfengleg og við lékum eins og meistarar. Hugarfarið og karakterinn voru eins og best verður á kosið og ég er afar stoltur af liðinu," sagði Ferguson en Carlos Tévez jafnaði metin þremur mínútum fyrir leikslok.
„Ég held að við hefðum getað fengið þrjár vítaspyrnur í leiknum og um þessar mundir fellur allt slíkt gegn okkur. En við getum ekki velt okkur uppúr því þar sem við áttum að vinna leikinn þráttfyrir það. Brad Friedel átti stórkostlegan leik í marki Blackburn en við höfðum yfirburði í seinni hálfleiknum," sagði Ferguson við BBC.
Manchester United er með þriggja stiga forskot á Chelsea og liðin mætast á Stamford Bridge næsta laugardag.