Aston Villa vann stórsigur á Birmingham, 5:1, í nágrannaslag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Villa Park í dag. Ashley Young var allt í öllu hjá Aston Villa, skoraði tvö mörk og lagði upp tvö til viðbótar.
Aston Villa fór uppí sjötta sætið með sigrinum, með 58 stig, og liðið er nú næst markahæst allra liða í deildinni með 67 mörk. Aðeins Manchester United hefur gert fleiri mörk. Birmingham situr hinsvegar eftir í fallsæti deildarinnar, 18. sætinu, með 31 stig þegar þremur umferðum er ólokið.
Ashley Young kom Aston Villa yfir á 28. mínútu, 1:0, með föstu skoti frá vítateig.
Young var aftur á ferð á 42. mínútu þegar hann tók aukaspyrnu, sendi boltann inní vítateig Birmingham þar sem John Carew stökk hæst allra og skoraði með skalla, 2:0.
Carew var aftur á ferðinni á 53. mínútu, aftur eftir sendingu frá Young og kom Aston Villa í 3:0.
Ashley Young hélt áfram að fara á kostum og á 63. mínútu brunaði hann inní vítateig Birmingham utanaf vinstri kanti, skot hans var varið en Young fylgdi sjálfur á eftir og skoraði, 4:0.
Mikael Forssell minnkaði muninn fyrir Birmingham í 4:1 á 67. mínútu. Hann fékk boltann frá James McFadden og renndi boltanum framhjá Scott Carson og í netið frá vítateig.
Gabriel Agbonlahor kom Aston Villa í 5:1 á 77. mínútu með föstu skoti af átján metra færi.