John Terry fyrirliði Chelsea segir lykilatriði fyrir liðið að ná að halda Spánverjanum Fernando Torres í skefjum þegar liðin eigast við á Anfield í fyrri rimmu liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.
Torres hefur skoraði í sjö síðustu leikjum sínum á Anfield og alls hefur hann náð að skora 30 mörk fyrir Liverpool í öllum keppnum á tímabilinu.
„Torres er virkilega góður leikmaður. Hreyfingar hans eru frábærar og bæði Steven Gerrard og aðrir miðjumenn Liverpool eiga auðvelt með að finna hann. Við erum meðvitaðir um að við verðum að spila góða vörn og ef okkur tekst að halda Torres og Gerrard í skefjum þá held ég að þetta verði í lagi hjá okkur,“ sagði Terry við fréttamenn í kvöld.
Chelsea endurheimtir Frank Lampard sem hefur ekki verið með í síðustu leikjum en Ghanamaðurinn sterki Michael Essien verður ekki með annað kvöld þar sem hann tekur út leikbann.