Barcelona og Manchester United gerðu markalaust jafntefli í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á Nou Camp í Barcelona í kvöld. Leikurinn var tilþrifalítill en besta færi leiksins féll Manchester United í skaut þegar liðið fékk dæmda vítaspyrnu á 2. mínútu leiksins en gulldrengurinn Ronaldo skaut framhjá úr vítinu.
Eiður Smári Guðjohnsen fékk ekki að spreyta sig hjá Börsungum en hann sat á bekknum. Síðari leikur liðanna fer fram á Old Trafford á þriðjudaginn en í millitíðinni mæta Englandsmeistararnir liði Chelsea í toppslag úrvalsdeildarinnar.
Textalýsing frá leiknum er hér að neðan:
2. Cristiano Ronaldo skýtur yfir úr vítaspyrnu sem dæmd var á Gabriel Milito fyrir að verja kollspyrnu Ronaldo eftir hornspyrnu með hendi.
Börsungar hafa sótt mjög stíft eftir að Ronaldo skaut framhjá úr vítinu og hafa Englandmeistararnir átt í miklum vandræðum og hafa þurft að bjarga í tvívang á elleftu stundu.
Fyrri hálfleikurinn er rúmlega hálfnaður og hafa Börsungar tekið öll völd á vellinum. Leikurinn fer fram að mestu í við vítateig Manchester United.
28. Ronaldo er við það að sleppa einn á móti markverði Barcelona eftir að hafa fengið sendingu á silfurfati frá Andresi Initesta. Portúgalinn féll í vítateignum eftir viðskipti við Marguez og heimtaði vítaspyrnu sem hann fékk ekki.
44. Rafael Marguez fer gult spjald fyrir brot á Ronaldo. Marguez er þar með kominn í leikbann og verður ekki með í síðari leiknum á Old Trafford.
Massimo Busacca dómari frá Sviss hefur flautað til leikhlés. Staðan er 0:0, í leik sem hefur ekki boðið upp á mikil tilþrif. Manchester United fékk besta færið þegar liðið fékk dæmda vítaspyrnu en Ronaldo skaut boltanum framhjá. Barcelona hefur haft undirtökin og hefur á köflum sótt mjög stíft að marki United án þess að skapa sér nein marktækifæri.
Síðari hálfleikurinn er hafinn á Nou Camp. Engar breytingar voru gerðar á liðunum í leikhléinu.
50. Barcelona kemst í ákjósanlega stöðu en eftir mistök Wes Brown komst Eto'o upp að endamörkum en Owen Hargreaves náði að bjarga á síðustu stundu.
52. Samuel Eto'o kemst í mjög gott færi, það besta fyrir utan vítaspyrnuna sem United fékk í byrjun en fast skot Kamerúnmannsins fór í hliðarnetið og þar sluppu ensku meistararnir með skrekkinn.
53. Mikið fjör hefur færst í leikinn. Michael Carrick komst í mjög gott færi en líkt og Eto'o skaut hann boltanum í hliðarnetið.
59. Edwin van der Sar gerir vel að verja fast skot frá Xavi. Börsungar sækja grimmt en liðsmenn United verjast vel, eru nánast allir fyrir aftan boltann.
62. Lionel Messi er kallaður af velli en Argentínumaðurinn, sem er nýstiginn upp úr meiðslum, hefur gert mikinn usla í vörn United. Bojan Krkic tekur stöðu Messi sem virðist svekktur með þá ákvörðurn Frank Rijkaards að taka hann velli.
73. Owen Hargreaves, hægri bakvörður Manchester United, fær að líta gula spjaldið fyrir brot á Krkic.
76. Alex Ferguson gerir breytingu á liði sínu. Wayne Rooney sem hefur verið ákaflega rólegur fer útaf og Portúgalinn Nani leysir hann af hólmi.
77. Thierry Henry kemur inná í liði Barcelona fyrir Deco. Henry hefur oft reynst United erfiður en hann skoraði 9 mörk í 18 leikjum fyrir Arsenal gegn Manchester-liðinu.
83. Thierry Henry á fast skot að marki United. Boltinn fer beint á Van der Sar sem á þó í erfiðleikum með að verja.
84. Manchester United gerir aðra breytingu. Ryan Giggs kemur inná fyrir Argentínumanninn Carlos Tevez.
Fyrir leik:
Nemanja Vidic er veikur og getur ekki tekið þátt í leiknum.
Hjá Barcelona vantar Ronaldinho sem á við meiðsli að stríða og fyrirliðinn Carles Puyol tekur út leikbann.
Eiður Smári Guðjohnsen og Thierry Henry eru báðir á bekknum hjá Barcelona.
Barcelona: Valdes - Zambrotta, Milito, Marguez, Abidal - Xavi, Toure, Iniesta - Deco, Eto'o, Messi. Varamenn: Pinto, Eiður Smári, Henry, Sylvinho, Giovani, Thuram, Bojan.
Man Utd: Van der Sar - Hargreaves, Ferdinand, Brown, Evra - Ronaldo, Park, Carrick, Scholes - Tevez - Rooney. Varamenn: Kuszczak, Anderson, Giggs, Nani, Pique, O'Shea, Silvestre.