Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United býst við opnum og fjörugum leik á Old Trafford í kvöld þegar United og Barcelona eigast við í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Ferguson vonar að sigurganga liðsins á heimavelli í Meistaradeildinni haldi áfram en United hefur unnið 11 heimaleiki í röð sem er met.
„Þetta er stórkostlegur árangur sem við höfum náð á heimavelli í Meistaradeildinni og við erum stoltir af honum. Það kemur okkur til góða í þessum leik að spila fyrir framan okkar frábæru stuðningsmenn en ég held samt að leikurinn verði í jafnvægi. Ég á von á miklu opnari leik og ég held að hann geti orðið mjög hrífandi,“ segir Sir Alex Ferguson.
„Við eigum frábæra möguleika á að komast í úrslitaleikinn en til þess þurfum við að spila góðan leik,“ segir Ferguson en lærisveinum hans mistókst að komast í úrslitin í fyrra þegar liðið tapaði fyrir AC Milan í undanúrslitum.
É„g held að Barcelona breyti ekki leikskipulagi sínu. Liðið mun reyna að spila boltanum á milli sín með stuttum sendingum svona hálfgerðri hringekjum og reyni þannig að láta mína menn fá svima,“ sagði Ferguson brosandi við fréttamenn.