Didier Drogba: Ber ekki lengur virðingu fyrir Benítez

Didier Drogba framherji Chelsea.
Didier Drogba framherji Chelsea. Reuters

Didier Drogba framherji Chelsea segir að Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool hafi hrapað í áliti á sér vegna ummæla sinna en Benítez hefur í aðdraganda leiks Chelsea og Liverpool í Meistaradeildinni sakað Drogba um leikræna tilburði á vellinum og hann sé endalaust að reyna fiska aukaspyrnur með leikaraskap.

„Benítez var knattspyrnustjóri sem ég bar mikla virðingu fyrir en ég geri það ekki lengur. Hann hefur með ummælum sínum valdið mér miklum vonbrigðum og bera vott um veikleika hans. Góður knattspyrnustjóri myndi aldrei leggjast svo lágt að ráðast að leikmanni eins og Benítez gerir,“ segir Drogba við franska íþróttablaðið L'Equipe.

„Hann ætti kannski að einbeita sér meira að eigin liði og ef hann vill að ég standi í fæturnar þá ætti hann að segja varnarmönnum sínum að hætta að brjóta á mér. Í fyrri leiknum voru Carragher og Skrtel í sífellu að brjóta á mér og sparka í mig og eftir leikinn var ég með marbletti út um allt. Í fyrra rifbeinsbrotnaði ég í leik á móti Liverpool í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Skrýtið að það skildi fara framhjá Benítez,“ segir Drogba.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka