Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, er ekki af baki dottinn þó svo að hann og leikmenn hans yrðu að sætta sig við tap fyrir Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu – og þar með missa af farseðlinum til Moskvu, þar sem úrslitaleikurinn fer fram 21. maí.
Benítez, sem hefur verið í afar heitu sæti, er þegar byrjaður að undirbúa framhaldið og vill koma með lið sitt sterkara til leiks á næsta keppnistímabili.
„Við þurfum að fá fleiri leikmenn í hæsta gæðaflokki, ef við ætlum að ná betri árangri á næsta keppnistímabili og blanda okkur af fullum krafti í baráttuna um Englandsmeistaratitilinn. Við þurfum að styrkja lið okkar verulega,“ sagði Benítez.
Þeir leikmenn sem eru efstir á blaði á óskalista Spánverjans eru Gareth Barry, leikmaður með Aston Villa, Antonio Valencia hjá Wigan og argentínski landsliðsmaðurinn Maxi Rodriguez hjá Atletico Madrid.
Það er ljóst að kaupæði Benítez er ekki í rénun. Hann ákvað fyrir þetta keppnistímabil að styrkja leikmannahóp sinn og þá sérstaklega sóknarleikinn og var ekki til sparað er hann keypti Spánverjann Fernando Torres, Lugas Leiva, Andriy Voronin, Ryan Bavle og Yossi Benayoun.
Þess má geta að langt er síðan „rauði herinn“ frá Liverpool varð Englandsmeistari – síðast 1990.