Þýski landsliðsmarkvörðurinn Jens Lehmann lék í dag kveðjuleik sinn með Arsenal á heimavelli þegar liðið lagði Everton, 1:0, á Emirates leikvanginum. Lehmann var hylltur í leikslok en hann spilaði síðustu 20 mínútur leiksins.
Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal staðfesti eftir leikinn að hinn 38 ára gamli markvörður færi frá félaginu í sumar en samningur hans er að renna út. Lehmann hefur verið varamarkvörður Arsenal í vetur og aðeins spilað þegar Manuel Almunia hefur verið meiddur. Wenger gaf síðan út að Lukasz Fabianski myndi spila lokaleiki Arsenal í deildinni, ekki Lehmann.
„Já, þetta eru lokin á ferli hans hjá Arsenal og þessvegna skipti ég honum inná. Við berum mikla virðingu fyrir honum. Jens er frábær atvinnumaður og með gífurlega hæfileika. Ég get ekki sett út á neitt hjá honum á þessum sjö árum sem ég vann með honum. Hann var með gríðarlega einbeitingu hvern einasta dag og lagði gífurlega hart að sér," sagði Wenger við fréttamenn eftir leikinn.
Lehmann, sem reyndar var í fimm ár hjá Arsenal, þakkaði stuðningsmönnum Arsenal en þeir risu úr sætum og fögnuðu honum í leikslok.
„Þessi augnablik í lokin voru ótrúleg upplifun fyrir mig, eftir fimm ára dvöl og margar gleðistundir. Þetta var frábær kveðjustund og ég er virkilega þakklátur stuðningsmönnum Arsenal sem munu ætíð eiga stað í hjarta mínu. Ég er afar sáttur við að hafa fengið tækifæri til að koma inná í leiknum. Mitt besta tímabil var þegar við töpuðum ekki leik en því miður var þetta tímabil ekki góður endir á ferli mínum hjá félaginu," sagði Lehmann, sem kvaðst ekki viss um hvort hann héldi áfram að spíla fótbolta á næsta tímabili.
„Ég veit ekki enn hvað ég geri. Ég spila í úrslitum Evrópukeppninnar og langar til að halda áfram eins og staðan er núna. En þið verðið að spyrja mig í sumar, að Evrópukeppninni lokinni. Þá hef ég kannski skipt um skoðun," sagði Lehmann sem verður 39 ára í nóvember og hefur spilað 53 landsleiki fyrir Þýskaland.