Avram Grant knattspyrnustjóri Chelsea viðurkenndi eftir leik sinna manna gegn Newcastle í dag að Manchester United væri með forskot í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn en hans menn myndu berjast fram á síðustu mínútu í kapphlaupinu um titilinn.
„Leikmenn hafa sýnt mikinn baráttuvilja og þetta er eitt besta tímabil liðsins. Manchester United er með forskot í baráttunni en það verður ekki auðvelt fyrir það í síðasta leiknum. United þarf að vinna. Við höfum veitt United mikla keppni og ætlum að gera það fram á síðustu mínútu,“ sagði Grant eftir sigur sinna manna á Newcastle í dag.
Grant var ánægður með þann viðsnúning sem varð á liðinu í seinni hálfleik og hann viðurkenndi að Newcastle hefði verið betra liðið á vellinum í fyrri hálfleik.
„Við lékum ekki vel í fyrri hálfleik. Leikur okkar var hægur og hreyfingin á mönnum ekki nógu. Kannski voru menn þreyttir. Við breyttum okkar leikskipulagi í seinni hálfleik sem var okkar besti á tímabilinu,“ sagði Grant.