Avram Grant, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að eftir sigur sinna manna á Newcastle í gær sé öll pressan á Manchester United í einvígi liðanna um enska meistaratitilinn, sem verður til lykta leidd í lokaumferðinni á sunnudaginn.
Manchester United og Chelsea eru jöfn að stigum, Man. Utd sækir Wigan heim en Chelsea spilar á heimavelli gegn Bolton. Takist United að sigra verður liðið meistari, hvað sem Chelsea gerir.
„Nú verðum við að sigra Bolton og sjá til hvað Unitedmenn gera. Pressan er öll á þeim. Vissulega eru líkurnar United í hag en það verður ekki auðvelt fyrir liðið að sigra í Wigan. En United er frábært lið og við veitum þeim harða keppni, og okkur tókst að halda henni áfram," sagði Grant.