Forráðamenn og leikmenn enska knattspyrnuliðsins Wigan eru mjög óhressir með fregnir um að þeir verði auðveld bráð fyrir Manchester United í lokaumferð úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn og að þeir muni nánast færa United enska meistaratitilinn á silfurfati.
Talsvert er gert úr því að Steve Bruce knattspyrnustjóri Wigan lék um árabil í vörninni hjá Manchester United, og að um nágrannalið sé að ræða og Wiganmenn vilji frekar að meistaratitillinn hafni í Manchester en í London. Ef Manchester United vinnur leikinn verður liðið meistari, sama hvað Chelsea gerir gegn Bolton. Taki Wigan stig af United, er Chelsea meistari með því að leggja Bolton að velli á Stamford Bridge.
„Allt þetta kjaftæði í fjölmiðlum um að við munum gera Manchester United auðvelt um vik er algjör della," sagði Dave Whelan við Sky Sports.
Paul Scharner, sem var kjörinn leikmaður ársins hjá Wigan, tók í sama streng. „Ég er viss um að liðið í heild mun halda fullri einbeitingu á síðasta leikdegi tímabilsins og það er mikið skemmtilegra að halda uppá góðan árangur eftir sigur. Við gerum allt til að ná góðum úrslitum. Við höfum gert jafntefli við Liverpool og Chelsea á útivöllum og við Arsenal á heimavelli og það væri frábært að vinna lokaleikinn," sagði Scharner en Wigan bjargaði sér frá falli með góðum endaspretti eftir að hafa staðið tæpt um tíma.
„Það hafa margir komið til mín á götu úti síðustu daga og beðið mig um að taka því rólega í leiknum og leyfa Manchester United að vinna. En við erum atvinnumenn og förum allir í leikinn á sunnudag með því markmiði að ná í þrjú stig," sagði sóknarmaðurinn Marcus Bent.