Benítez og O'Neill í hár saman

Martin O'Neill er ekki ánægður með Rafael Benítez.
Martin O'Neill er ekki ánægður með Rafael Benítez. Reuters

Knattspyrnustjórarnir Rafael Benítez hjá Liverpool og Martin O'Neill hjá Aston Villa eru komnir í hár saman vegna meintra viðræðna þeirra um Gareth Barry, enska landsliðsmanninn hjá Aston Villa.

O'Neill er foksillur yfir því sem Benítez hefur látið hafa eftir sér um viðræður þeirra en Spánverjinn kveðst ekkert skilja í hamaganginum í Norður-Íranum.

O'Neill segir að þau orð Benitez að viðræður væru í gangi þeirra á milli um möguleg kaup Liverpool á Barry væru gjörsamlega útí hött. Benítez sagði í gær að hann og O'Neill ætluðu að bíða þess að tímabilinu lyki og ræða þá málin nánar en fram hefur komið að Villa hafnaði 10 milljón punda boði Liverpool í Barry.

„O'Neill hefur sagt hverjum sem heyra vill af tilboði okkar en við erum tilbúnir til að bíða og halda öllum möguleikum opnum. Við ræddum þetta okkar á milli fyrir 20 dögum, hann vissi nákvæmlega hverjar mínar hugmyndir voru, ég vissi hvað hann vildi, og hann sagðist ætla að tala  við eiganda Villa um málið," sagði Benítez í gær og kvaðst jafnframt hissa á því að O'Neill væri æfur vegna þess að fregnir af tilboði Liverpool í Barry hefðu lekið út til fjölmiðla.

„Ég hef ekki hugmynd um hvað hann er að tala. Af honum má skilja að ég hefði viljað halda þessum viðræðum áfram, halda málinu opnu. Það er víðsfjarri og algjör vitleysa. Ég átti ekki frumkvæðið að þessu og hef heldur ekki tekið upp símann til að spyrja hann um hans leikmenn, eins og hann er að reyna að gefa í skyn. Hann nefndi sjálfur ákveðna leikmenn en það er ekkert víst að ég hafi áhuga á þeim," sagði O'Neill á vef Aston Villa í dag.

„Ég held að Rafa sé að reyna að vera sniðugur með því að gefa í skyn að við séum í stöðugum viðræðum, sem er ósatt. Hann hringdi í mig, það var ekki að mínu undirlagi. Hann spurði um Gareth Barry og ég svaraði því til að hann ætti framundan ágóðaleik og ætti tvö ár eftir af samningi, auk þess sem hann væri okkar besti leikmaður. Við hverju bjóst hann? Ég sagðist ætla að láta eiganda félagsins vita. Að sjálfsögðu, hann hefur mikið að segja í þessu öllu saman, og ég gerði ráð fyrir því að svar hans yrði það sama og mitt - að Gareth væri ekki til sölu.

Ég var því steini lostinn að lesa ummæli Benítez. Ég talaði síðast við hann síðasta föstudagsmorgun eftir að Liverpool hafði sent okkur tilboð á faxi deginum áður," sagði Martin O'Neill.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert