Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Bolton hafi gleymst í umræðunni um lokaumferð úrvalsdeildarinnar. Allir séu að tala um Wigan og efast um að liðið muni spila af fullum krafti gegn sínum mönnum en Bolton sé í svipaðri stöðu gegn Chelsea.
Leikirnir fara fram á sunnudaginn, á sama tíma, og þar ræðst hvort það verður Manchester United eða Chelsea sem hampar Englandsmeistaratitlinum. United nægir að vinna Wigan en Chelsea þarf að vinna Bolton og treysta á að Wigan nái stigi.
„Það segir enginn neitt um Bolton. Menn hafa efast um heilindi Wigan en þegar málið er skoðað er athyglisvert hvernig menn horfa misjöfnum augum á þessi lið. Bæði eru þau örugg með sæti sitt í deildinni, afslöppuð og full sjálfstraust. Samt virðist annað mega fagna sínum árangri á meðan hitt er hvatt til að gera allt sem það getur gegn Manchester United.
En ég er rólegri yfir þessu vegna þess að ég þekki knattspyrnustjórann hjá Bolton og aðstoðarmann hans mjjög vel. Ég vann með Archie Knox hjá Aberdeen og Manchester United í mörg ár og vildi að hann væri sjálfur enn að spila. Hann mun ekki líða sínum mönnum að fagna fyrir leikinn og sama er að segja um Gary Megson. Þetta er mikilvægur leikur fyrir þá og ég treysti þessum tveimur vel til að veita Chelsea harða keppni," sagði Ferguson við BBC.