Umboðsmaður hvítrússneska knattspyrnumannsins Aliaksandrs Hlebs, segir að nú sé orðið ljóst að Hleb sé á förum frá Arsenal. Ekki verið aftur snúið og hann yfirgefi félagið innan tveggja vikna en Hleb hefur ítrekað verið orðaður við Inter Mílanó.
„Aliaksandr er að búa sig undir mikilvægasta flutning sinn á ferlinum. Hann er að yfirgefa Arsenal, enda þótt félagið vilji bjóða honum nýjan langtímasamning og betri kjör. Það verður að koma í ljós hvort þetta sé rétt ákvörðun en héðan í frá verður ekki aftur snúið. Þetta verður allt klappað og klárt innan tveggja vikna," sagði umboðsmaðurinn, Nikolai Shpilevski, við hvítrússneska blaðið Pressball í dag.
Hleb er 27 ára gamall sóknartengiliður og hefur spilað með Arsenal í þrjú ár en hann kom til félagsins frá Stuttgart sumarið 2005. Hann hafði þá leikið með þýska félaginu í fimm ár en áður hafði hann orðið meistari í heimalandi sínu með BATE Borisov.
Þetta yrði mikið áfall fyrir Arsenal sem hefur þurft að sjá á bak Mathieu Flamini, öðrum lykilmanni úr liði sínu.