Fulham sigraði, Reading og Birmingham féllu

Ívar Ingimarsson og félagar í Reading eru fallnir úr úrvalsdeildinni.
Ívar Ingimarsson og félagar í Reading eru fallnir úr úrvalsdeildinni. Reuters

Fulham sigraði í dag Portsmouth á útivelli, 1:0, í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu og bjargaði sér með því frá falli. Danny Murphy skoraði markið dýrmæta á 76. mínútu. Þar með féllu Reading og Birmingham úr úrvalsdeildinni, þrátt fyrir að bæði lið ynnu góða sigra.

Portsmouth - Fulham 0:1

Danny Murphy kom Fulham yfir, 0:1, á 76. mínútu og sendi með því Reading í fallsætið. Frábær endasprettur hjá Fulham sem virtist lengst af á leið niður í 1. deildina.

Hermann Hreiðarsson var í byrjunarliði Portsmouth og lék allan leikinn.

Derby - Reading 0:4

James Harper kom Reading yfir á 15. mínútu og liðið því úr fallsæti í bili. Dave Kitson kom Reading í 2:0 á 61. mínútu og staða liðsins því vænleg. Kevin Doyle bætti við marki, 3:0, á 69. mínútu og þar með var ekki annað fyrir Readingmenn að gera en að bíða frétta af leik Portsmouth og Fulham. Leroy Lita skoraði með þrumuskalla undir lokin, 4:0, en stuðningsmenn Reading fögnuðu ekki því þeir vissu að þeir væru á leið úr deildinni þar sem Fulham hafði skorað gegn Portsmouth.

Ívar Ingimarsson var í vörn Reading allan leikinn en Brynjar Björn Gunnarsson var ekki í leikmannahópnum. 

Birmingham - Blackburn 4:1

David Murphy kom Birmingham yfir á 31. mínútu en Morten Gamst Pedersen jafnaði fyrir Blackburn á 48. mínútu. Cameron Jerome skoraði síðan tvívegis fyrir Birmingham og Fabrice Muamba innsiglaði stórsigur Birmingham en það dugði skammt því Birmingham féll vegna þess að Fulham og Reading unnu líka.

Aðrir leikir:

Everton - Newcastle 3:1

Ayegbeni Yakubu kom Everton yfir á 28. mínútu en Michael Owen jafnaði fyrir Newcastle úr vítaspyrnu á 47. mínútu. Joleon Lescott kom Everton yfir á ný, 2:1, á 70. mínútu og Yakubu skoraði úr vítaspyrnu, 3:1.

Middlesbrough - Manch.City 8:1

Richard Dunne hjá City var rekinn af velli á 15. mínútu og dæmd vítaspyrna sem Stewart Downing skoraði úr, 1:0. Afonso Alves bætti við marki fyrir Boro á 37. mínútu, 2:0. Downing skoraði, 3:0, á 58. mínútu og Alves á 60. mínútu, 4:0. Adam Johnson bætti við marki fyrir Boro, 5:0, Fabio Rochemback skoraði með þrumufleyg úr aukaspyrnu, 6:0 og Jeremie Aliadiere bætti við marki, 7:0. Elano náði að koma City á blað en Afonso Alves náði þrennunni áður en yfir lauk, 8:1 fyrir Middlesbrough!

West Ham - Aston Villa 2:2

Nolberto Solano kom West Ham yfir á 8. mínútu en Ashley Young jafnaði fyrir Villa á 14. mínútu. Gareth Barry kom Villa yfir á 58. mínútu, 1:2 en Dean Ashton jafnaði fyrir West Ham, 2:2.

Sunderland - Arsenal 0:1

Theo Walcott kom Arsenal yfir á 25. mínútu. 

Tottenham - Liverpool 0:2

Andriy Voronin kom Liverpool yfir á 69. mínútu og Fernando Torres bætti við marki á 74. mínútu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert