John Terry, fyrirliði Chelsea, var borinn af velli eftir aðeins 15 mínútna leik í viðureign liðsins gegn Bolton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Flest bendir til þess að hann hafi slasast á handlegg en Terry var sárþjáður þegar hann var borinn af velli. Hann stökk upp í skallaeinvígi ásamt Kevin Davies, leikmanni Bolton, og lenti illa á öðrum handleggnum.
BBC segir að læknalið Chelsea telji að um handleggsbrot sé að ræða.
Þar með virðist mikil hætta á því að Terry missi af úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Manchester United síðar í þessum mánuði.