Það kemur í ljós laust fyrir klukkan fjögur í dag hvort það verður Manchester United eða Chelsea sem stendur uppi sem Englandsmeistari í knattspyrnu árið 2008, og hvort það verður Fulham, Reading eða Birmingham sem nær að bjarga sér frá falli úr úrvalsdeildinni.
Allir tíu leikirnir í deildinni hefjast klukkan 14.00 og sjaldan hefur verið jafnmikil spenna í lokaumferð deildarinnar þar sem fimm leikir af tíu ráða úrslitum um meistaratitil eða fall.
Manchester United sækir Wigan heim og verður enskur meistari með sigri. Liðið er með sömu stigatölu og Chelsea en mun betri markatölu. Manchester United er nánast með sitt sterkasta lið en þó er óvíst hvort Wayne Rooney taki þátt í leiknum.
Chelsea fær Bolton í heimsókn og þarf að vinna leikinn, og treysta á að Manchester United sigri ekki Wigan. Eða þá að gera jafntefli og treysta á að United tapi á JJB-leikvanginum. Grétar Rafn Steinsson verður væntanlega hægri bakvörður hjá Bolton sem fyrr og Heiðar Helguson er í 20 manna hópnum fyrir leikinn. Hjá Chelsea er óvíst hvort Ricardo Carvalho geti spilað en aðrir ættu að vera í lagi.
Ef bæði Manchester United og Chelsea sigra í dag verður þetta í fyrsta skipti frá stofnun úrvalsdeildarinnar árið 1992 sem úrslitin um meistaratitilinn ráðast á markatölu, og í fyrsta sinn síðan 1989 sem það gerist.
Fulham á bestu möguleikana á að bjarga sér frá falli því takist liðinu að sigra Portsmouth, reyndar á útivelli, leikur liðið áfram í úrvalsdeildinni, sama hvað keppinautarnir, Reading og Birmingham, gera í sínum leikjum. Hermann Hreiðarsson er í hópnum hjá Portsmouth og verður væntanlega í byrjunarliðinu að vanda. Ljóst er að David James verður ekki í markinu vegna meiðsla.
Reading sækir botnlið Derby heim og þarf að sigra, og treysta á að Fulham vinni ekki Portsmouth, til að halda sér í deildinni. Ívar Ingimarsson er í hópnum hjá Reading en óvíst er hvort Brynjar Björn Gunnarsson komi við sögu þó hann sé búinn að ná sér af meiðslum.
Birmingham fær Blackburn í heimsókn og stendur verst að vígi. Birmingham þarf að vinna leikinn og treysta á að hvorki Fulham né Reading vinni sína leiki. Geri Birmingham jafntefli, sleppur liðið þó við fall ef bæði Fulham og Reading tapa sínum leikjum.