Ferguson fær fé til styrkingar

Alex Ferguson hefur 10 sinnum gert lið Manchester United að …
Alex Ferguson hefur 10 sinnum gert lið Manchester United að ensku meisturum. Reuters

David Gill, framkvæmdastjóri enska meistaraliðsins Manchester United, sagði í dag að knattspyrnustjórinn Alex Ferguson fengi fjármuni til þess að styrkja lið sitt enn frekar fyrir titilvörnina næsta vetur.

„Við erum í þeirri stöðu að ef við getum bætt okkar lið enn frekar, þá gerum við það. Við erum í bestu deild í heimi, þannig að ef við viljum vera  áfram á toppnum þá verðum við að fara vel yfir okkar leikmannahóp og bæta hann eftir því sem með þarf," sagði Gill við BBC.

Ferguson keypti fjóra leikmenn síðasta sumar, Owen Hargreaves, Anderson, Carlos Tévez og Nani, sem allir komu talsvert við sögu í vetur. Nú er þegar farið að orða sterka leikmenn við Manchester United, svo sem Michael Owen hjá Newcastle og Micah Richards hjá Manchester City.

„Þegar dýrir leikmenn eru keyptir, eins og við gerðum á síðasta ári, er frábært að sjá þá koma inní liðið og standa sig vel. Það sýnir vel hvers konar félag við erum. Allar þessar stjörnur eru teknar hratt inní hópinn og boðnar afar velkomnar, og þessvegna standa þær sig þegar inná völlinn er komið," sagði Gill og tók fram að árangur vetrarins ætti margar skýringar.

„Við getum þakkað Ferguson, aðstoðarmanni hans Carlos Queiroz, þjálfaraliði þeirra, útsendurum okkar og leikmönnunum. Það sem fram fer innan vallar ræður úrslitunum en það sem fram fer utan vallar gefur Alex tækifæri til að fjárfesta enn frekar. Glazer-fjölskyldan hefur fært félaginu stöðugleika undanfarin þrjú ár og eigendurnir vita hve þýðingarmikið er að standa sig innan vallar, og vera jafnframt með viðskiptaþáttinn á hreinu utan vallar. En það munu alltaf einhverjir vera á móti Glazer og hans fjölskyldu, jafnvel þótt við verðum Evrópumeistarar í Moskvu," sagði Gill.

Hann sagði ekkert til í því að Ferguson væri að íhuga að setjast í helgan stign. „Hann er á tólf mánaða opnum samningi og við ræðum aldrei hvenær hann ætli að hætta. Hann hefur ákafann og löngunina í að ná lengra," sagði framkvæmdastjórinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert