Scott Duxbury, framkvæmdastjóri Íslendingafélagsins West Ham, staðfesti í dag að forráðamenn félagsins myndu setjast niður með framherjanum Dean Ashton og bjóða honum langtímasamning en Ashton hefur verið orðaður við önnur félög að undanförnu.
Ashton kom til West Ham frá Norwich fyrir tveimur árum en missti alveg af keppnistímabilinu 2006-2007 vegna ökklabrots en þá var hann á æfingu með enska landsliðinu og átti í vændum sinn fyrsta landsleik.
Í vetur gerði hann hinsvegar 11 mörk fyrir West Ham, þar af þrjú í síðustu þremur umferðunum.
„Við munum setjast niður á föstudaginn með það að markmiði að semja við Dean Ashton til langs tíma," sagði Duxbury við Sky Sports.