Cristiano Ronaldo, leikmaður Englandsmeistara Manchester United, hefur verið orðaður við mörg lið, enda snjall leikmaður þar á ferð. Real Madrid er eitt þeirra liða sem hann hefur stöðugt verið orðaður við.
Bernd Schuster, þjálfari Real, virðist hins vegar vera búinn að gefast upp á að eltast við hinn 23 ára Portúgala. Ronaldo gaf þessum sögusögnum byr undir báða vængi í síðustu viku þegar hann sagðist vilja spila á Spáni - einn góðan veðurdag.
„Það er fullt af leikmönnum sem ég gæti hugsað mér að fá, en ég tel nær útilokað að Ronaldo gangi til liðs við okkur,“ sagði Schuster um helgina. Ronaldo er með samning við United til ársins 2012 og United hefur lýst því yfir að félagið hafi ekki í hyggju að selja hann.
„Ég eyði ekki tíma mínum í svona hluti. Ég vinn frekar í þeim málum sem möguleiki er á að leysa - ekki þeim sem eru bara sögusagnir,“ sagði Schuster.