Margir Leedsarar komast ekki á Wembley

Ljóst er að fjölmargir stuðningsmenn enska knattspyrnuliðsins Leeds United komast ekki á úrslitaleikinn við Doncaster um sæti í 1. deildinni sem fram fer á Wembley á sunnudaginn. Doncaster þurfti að loka sinni miðasölu í dag vegna ágangs þar frá örvæntingarfullum fylgismönnum Leeds sem ekki fengu miða hjá sínu félagi.

Hvort félag um sig fær 36 þúsund miða til að selja á leikinn. Leeds hefur þegar selt sinn kvóta og annar ekki eftirspurn en Doncaster, sem fær að jafnaði um 8.000 manns á sína heimaleiki, hefur selt um 24 þúsund miða. Forráðamenn Doncaster buðust til þess að láta Leeds fá 6 þúsund af sínum miðum en stjórn deildakeppninnar hafnaði því.

Í dag myndaðist löng röð við miðasölu Doncaster á leikvangi félagsins, Keepmoat Stadium, og í ljós kom að þar voru Leedsarar á ferð. Þeir fengu ekki að kaupa miða og voru að vonum sárir og svekktir. Forráðamenn Doncaster hafa mikla samúð með þeim.

„Ég sá þá hópast að og bíða í röð við okkar miðasölu og finnst þetta afar leiðinlegt fyrir þeirra hönd. Ég hafði samband við deildarstjórnina og óskaði eftir því að fá að senda miða til Leeds en þeir sögðu að vegna aðskilnaðar stuðningsmanna á leiknum væri það útilokað," sagði John Ryan, stjórnarformaður Doncaster.

Deildarstjórnin hefur strangt eftirlit með því að engir stuðningsmenn Leeds geti keypt miða í Doncaster og séð er til þess að einungis skráðir stuðningsmenn Doncaster fái miða þar.

Margir urðu frá að hverfa á Elland Road, leikvangi Leeds, þegar síðustu 10 þúsund miðarnir voru seldir og forráðamenn félagsins hafa skorað á þá sem ekki eru með miða að halda sig heima í Leeds á sunnudaginn og fylgjast með leiknum þaðan, í stað þess að fara miðalausir til London.

Leeds, sem komst í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í byrjun þessa áratugar, féll niður í 2. deild í fyrsta skipti fyrir ári síðan. Liðið fékk síðan refsingu vegna greiðslustöðvunar og þurfti að hefja keppni í 2. deild með 15 stig í mínus. Leeds tókst að ná sjötta sætinu þrátt fyrir það og komst þar með í umspilið. Þar vann liðið sigur á Carlisle á ævintýralegan hátt, sigraði 2:0 á útivelli eftir að hafa tapað 1:2 heima, og mætir því Doncaster í úrslitaleiknum um 1. deildarsætið á sunnudag.

Swansea og Nottingham Forest enduðu í tveimur efstu sætum 2. deildar og tryggðu sér þannig beint sæti í 1. deild. Doncaster var með pálmann í höndunum fyrir lokaumferðina, gat farið beint upp en tapaði sínum leik og Forest, sem varð Evrópumeistari 1978 og 1979, komst upp í staðinn.

Leeds hefur reynst mörgum félögum í 2. deildinni í vetur arðvænlegur mótherji. Öll hin 23 liðin í deildinni voru með sína bestu aðsókn á tímabilinu þegar Leeds kom í heimsókn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert