Avram Grant var í dag sagt upp störfum sem knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Chelsea. Grant tók við liðinu af Portúgalanum José Mourinho í september á síðasta ári og undir hans stjórn varð Chelsea í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar og tapaði fyrir Manchester United í úrslitum Meistaradeildarinnar.
Þetta kemur fram á vef Chelsa í dag en í yfirlýsingu sem birt er á vef félagsins segir meðal annars. „Allir hjá Chelsea þakka Grant fyrir störf hans fyrir félagið. Nú mun félagið setja allan kraft í að finna nýjan knattspyrnustjóra.“
Meðal þeirra sem hafa verið nefndir til sögunnar eru Roberto Mancini þjálfari Inter og Frank Rijkaard fyrrum þjálfari Barcelona en ætli menn hugsi sig ekki tvisvar um að taka við Lundúnaliðinu með Roman Abramovich á bakinu. Grant tókst að gera það sem engum fyrirrennara hans hefur tekist, það er að koma liðinu í úrslit Meistaradeildarinnar.