Hull City var rétt í þessu að tryggja sér sæti í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í fyrsta skipti í 104 ára sögu félagsins en liðið sigraði Bristol City, 1:0, í úrslitaleik um þriðja lausa sætið í úrvalsdeildinni á Wembley.
Það var hinn gamalreyndi Dean Windass, 39 ára gamall, sem skoraði sigurmarkið með glæsilegu viðstöðulausu skoti frá vítateig á 39. mínútu og þrátt fyrir harða hríð að marki Hull í seinni hálfleik tókst liðinu ekki að jafna metin.