Liverpool hefur komið skýrum skilaboðum áleiðis til Chelsea að það þýði ekkert fyrir liðið að gera tilboð í spænska framherjann Fernando Torres. Fregnir frá Englandi og Spáni herma að Chelsea hafi í undirbúningi að bjóða Liverpool 50 milljónir punda, rúma 7 milljarða íslenskra króna.
Torres, sem er 24 ára gamall, fór á kostum á sinni fyrstu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni en framherjinn skæði skoraði 33 mörk á tímabilinu.
Orðrómur hefur verið í gangi að Liverpool sé tilbúið að selja Torres fyrir háa fjárhæð en talsmaður Tom Hicks eiganda Liverpool vísar þessum orðrómi algjörlega á bug.
„Torres verður ekki seldur undir neinum kringumstæðum. Þetta er algjör fjarstæða,“ sagði talsmaðurinn í viðtali við breska blaðið The Mirror.
Sjálfur neitar Torres þessum sögusögnum.
„Ég er mjög ánægður hjá Liverpool en ég kýs spá ekkert í þessar fréttir heldur er ég að einbeita mér að EM. Eftir Evrópukeppnina fer í sumarfrí og sný svo aftur til Liverpool. Það er liðið mitt, Liverpool er borgin mín og Anfield er völlurinn minn. Ég get ekki sagt hversu ánægjuleg tilfinning er að spila fyrir Liverpool og hve ánægður ég er með hvað mér hefur verið vel tekið af stuðningsmönnum félagsins. Þetta var mitt fyrsta tímabil með Liverpool og ég ætla að spila betur um mörg ókomin ár hjá Liverpool,“ sagði Torres við The Mirror.