Arsenal krækir í Aaron Ramsey

Stuðningsmenn Cardiff sjá nú á bak Aaron Ramsey til Arsenal.
Stuðningsmenn Cardiff sjá nú á bak Aaron Ramsey til Arsenal. Reuters

Arsenal virðist hafa unnið baráttuna um Aaron Ramsey, knattspyrnumanninn efnilega frá Wales, en BBC skýrir frá því  að Ramsey hafi valið Arsenal framyfir Manchester United og Everton.

Ramsey, sem er aðeins 17 ára, hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína með Cardiff City í ensku 1. deildinni.

Peter Ridsdale, stjórnarformaður Cardiff, sagði við BBC að Arsenal hefði boðið best, 5 milljónir punda, en boð Manchester United hefði þó verið jafngott vegna þess að þar hafði Cardiff kost á að fá Ramsey lánaðan um sinn.

Forráðamenn Arsenal flugu með Ramsey til Sviss til fundar við Arsene Wenger knattspyrnustjóra félagsins, sem er þar að fylgjast með Evrópukeppnnni, og eftir þann fund hefur piltur gert upp hug sinn.

Í yfirlýsingu frá Cardiff segir að félaginu hafi verið tilkynnt í morgun að Ramsey hafi tekið þá ákvörðun að fara til Arsenal og nú verði viðræðum félaganna haldið áfram til að ganga frá félagaskiptunum.

Ramsey, sem verður 18 ára í desember, hefur verið eftirsóttasti leikmaðurinn utan úrvalsdeildarinnar. Hann leikur með landsliði Wales undir 21 árs. Þá varð Ramsey yngsti leikmaðurinn í sögunni til að spila með aðalliði Cardiff, 16 ára og 124 daga gamall, þegar hann lék með liðinu gegn Hull í 1. deildinni í apríl 2007. Þá sló hann einmitt met Johns Toshacks, núverandi landsliðsþjálfara.

Toshack valdi Ramsey í A-landsliðshóp sinn fyrir vináttulandsleikina gegn Íslandi og Hollandi um síðustu mánaðamót en hann lék ekki með.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert