Evra skrifar undir nýjan samning

Evra fagnaði tveimur stórum titlum með United í ár.
Evra fagnaði tveimur stórum titlum með United í ár. Reuters

Knattspyrnumaðurinn Patrice Evra, leikmaður Evrópu- og Englandsmeistara Manchester United, hefur skrifað undir nýjan fjögurra ára samning við félagið, en gamli samningurinn átti að renna út að ári liðnu.

„Patrice hefur verið lykilmaður í árangri liðsins síðustu tvær leiktíðir. Hann er orðinn einn besti bakvörður heimsins í dag og persónuleiki hans hefur hjálpað til við að skapa þann ótrúlega liðsanda sem ríkir á Old Trafford,“ sagði Sir Alex Ferguson eftir að samningurinn var kunngerður.

Evra, sem nú er með franska landsliðinu á Evrópumótinu í knattspyrnu, kom til rauðu djöflanna frá franska liðinu Mónakó í janúar 2006 fyrir fimm og hálfa milljón punda. Hann kvaðst ánægður með að nýr samningur væri í höfn.

„Það er mikill heiður og ánægjulegt fyrir mig að vera hluti af þessu frábæra félagi og leika undir stjórn Sir Alex Ferguson og félaga. United er meira en knattspyrnufélag, það er fjölskylda sem ég er stoltur af að tilheyra og þess vegna hefur það alltaf verið mitt fyrsta val,“ sagði Evra og bætti við.

„Þegar ég kom hingað sagðist ég ekki vera kominn til þess að fá að spila heldur til þess að vinna titla, og United er tilvalið félag til að uppfylla þann draum. Það eru forréttindi að leika fyrir okkar frábæru stuðningsmenn og ég er viss um að árangur síðustu tveggja ára er upphafið af einhverju enn sérstakara.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert