Hinn tvítugi franski landsliðsmaður, Samir Nasri, er á leið til enska úrvalsdeildarfélagsins Arsenal fyrir upphæð sem talinn er nema um 1,7 milljarði króna. Nasri er sagður hafa skrifað undir fjögurra ára samning og mun ganga til liðs við Arsene Wenger og félaga að loknu Evrópumótinu.
Nasri, sem er kantmaður, hefur verið leikmaður Marseille frá níu ára aldri og var á síðustu leiktíð útnefndur besti leikmaður liðsins af stuðningsmönnum. Hann var einnig kjörinn efnilegasti leikmaður síðasta tímabils í efstu deild Frakklands.
Nasri lék tvo landsleiki með Frökkum á Evrópumótinu í ár en náði ekki frekar en aðrir leikmenn liðsins að sýna sínar bestu hliðar.