Stjóri Tottenham, Spánverjinn Juande Ramos, vill gjarnan fá Ruud van Nistelrooy í búning liðsins fyrir næstu leiktíð og sér hann sem fyrsta flokks staðgengil Dimitar Berbatov fari svo að Búlgarinn yfirgefi herbúðir liðsins.
Þó fráleitt virðist kannski er hugmyndin líklegri en margur heldur við fyrstu sýn en það veltur á ákvörðun Cristiano Ronaldo. Ákveði hann að fara til Real Madrid þurfa Spánverjarnir að punga duglega út og verður hann án alls efa dýrasti knattspyrnumaður heims gangi það í gegn.
En meira að segja djúpar hirslur Real Madrid eru ekki botnlausar og má leiða líkum að því að selja verði tvo til þrjá betri leikmenn liðsins í staðinn. Ekki er fráleitt að Nistelrooy verði einn þeirra.
Á hinn bóginn er ekkert í hendi hvað Berbatov varðar annað en hann hefur óskað eftir að fá að ræða við önnur félög.