Edwin van der Sar, markvörðurinn reyndi frá Manchester United, lék í gærkvöld sinn síðasta landsleik fyrir Hollendinga þegar þeir töpuðu, 1:3, fyrir Rússum í átta liða úrslitum Evrópukeppninnar í knattspyrnu.
Þetta var hans 128. landsleikur en þann fyrsta spilaði van der Sar árið 1995, þá undir stjórn Guus Hiddinks, sem nú þjálfar rússneska landsliðið og sló landa sína út úr keppninni í gærkkvöld.
Van der Sar jafnaði í gærkvöld met Lilians Thurams frá Frakklandi með því að leika sinn 16. leik í úrslitakeppni EM.
„Við vorum ekki nógu góðir til að sigra Rússana og verðum að viðurkenna að þeir spiluðu frábærlega. Það er mikil synd að við skulum vera á heimleið núna eftir að hafa leikið snilldarlega framan af keppninni. Nú verðum við að horfa til framtíðar, en það verður án mín. Það er ekki rétt að leita að sökudólgum á því hvernig fór að þessu sinni," sagði markvörðurinn reyndi sem er 37 ára gamall.