Dýrasti knattspyrnumaður allra tíma, Frakkinn Zinedine Zidane, segir allar líkur á því að Cristiano Ronaldo leikmaður Manchester United fari til Spánarmeistara Real Madrid í sumar. Vilji Portúgalans sé allt sem til þurfi.
„Hann hefur átt frábært tímabil, er Evrópumeistari, og ef hann vill spila hjá Madrid þá fær hann það,“ sagði Zidane sem staddur er í Vínarborg þar sem Evrópumót landsliða í knattspyrnu fer fram.
„Þegar Madrid vill fá góða leikmenn þá fara þeir þangað,“ bætti Zidane við. Hann fór sjálfur til Real Madrid fyrir metfé, tæplega 46 milljónir punda eða 7,3 milljarða króna, frá Juventus árið 2001.
„Ef Ronaldo fer til Madrid þá verður það fyrir háa upphæð, og Madrid er tilbúið að borga mun meira en fyrir mig,“ sagði Zidane. „Þetta myndi létta ákveðinni byrði af mér. Vonandi kaupa þeir Ronaldo fyrir nýja metupphæð,“ bætti hann við.
Ronaldo hefur sjálfur gefið það út að niðurstöðu í hans málum sé að vænta á allra næstu dögum.