Franski knattspyrnumaðurinn Samir Nasri tilkynnti á heimasíðu sinni nú síðdegis að hann væri búinn að semja við enska félagið Arsenal til næstu fjögurra ára.
Arsenal greiðir Marseille 15,8 milljónir punda fyrir þennan tvítuga miðjumann sem lék tvo af þremur leikjum Frakka í Evrópukeppninni á dögunum, báða sem varamaður. Í heimalandi sínu hefur hann verið kallaður hinn nýi Zinedine Zidane.
Nasri hefur spilað með Marseille frá 9 ára aldri og með aðalliði félagsins í fjögur ár. Hann verður 21 árs gamall á fimmtudaginn og hefur leikið 12 A-landsleiki fyrir Frakkland og skorað í þeim 2 mörk.