Þrettán milljarðar króna, plús klink, er sú upphæð sem Real Madrid er reiðubúið að reiða fram til að freista þess að fá Cristiano Ronaldo í sínar raðir.
Klinkið í þessu tilfelli er 55 milljónum króna betur en þrettán milljarðar en heimildir breskra fjölmiðla benda til að það sé upphæð sem eigendur Manchester United, Glazer fjölskyldan, geti sætt sig við jafnvel þó Skotinn skapheiti Alex Ferguson geti það ekki.
Telja sömu heimildamenn ljóst að dagar Ronaldo hjá United séu taldir enda ljóst að sjálfur vill hann til Spánar. Ekkert vit sé í að halda honum óánægðum hjá United.
Sögusagnir ganga um að laun Ronaldo hjá Real Madrid dugi vel fyrir nokkru salti í graut; fær hann 36 milljónir í vikulaun auk 30 prósenta allra tekna af vörum tengdum sér á Spáni og hundrað prósent allra tekna fyrir utan heimalandið.
Séu þær réttar er þess ekki lengi að bíða að nafn Cristiano Ronaldo bregði fyrir á lista Forbes yfir ríkustu menn heims.