Enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham er á höttunum eftir brasilíska markverðinum Heurelho Gomes sem leikur með Hollandsmeisturum PSV Eindhoven.
Varamarkvörður Tottenham, Radek Cerny, er farinn frá félaginu og eftir standa Paul Robinson aðalmarkvörður og hinn óreyndi Ben Alnwick, og er talið að Juande Ramos, knattspyrnustjóri Tottenham, vilji bregðast við því áður en leiktíðin hefst í ágúst.
Gomes er 27 ára og hefur leikið með PSV frá árinu 2004, þegar hann kom frá Cruzeiro í heimalandinu. Hann hefur leikið 17 landsleiki fyrir brasilíska landsliðið.