Sneijder: Ég fer ekki til United

Wesley Sneijder er sæll og glaður hjá Real Madrid.
Wesley Sneijder er sæll og glaður hjá Real Madrid. Reuters

Wesley Sneijder, hollenski knattspyrnumaðurinn hjá Real Madrid, segir að það komi ekki til greina hjá sér að fara til Manchester United. Hann hefur verið nefndur til sögunnar sem hluti kaupverðsins ef Real tekst að semja við United um að fá Cristiano Ronaldo í sínar raðir.

Sneijder, sem er 24 ára og lék frábærlega með Hollendingum í Evrópukeppninni á dögunum, átti mjög gott tímabil með Real Madrid en hann kom þangað frá Ajax síðasta sumar.

„Þegar ég yfirgaf Ajax, var Real Madrid eina félagið sem ég vildi fara til. Það er besta félag í heimi. Nú er ég hér og vil vinna alla þá titla sem mögulegt er og klæðast treyju félagsins eins lengi og kostur er á. Samskonar sögusagnir hafa verið í gangi um Robinho. Ég vona að hann fari ekki heldur og vona að Cristiano Ronaldo bætist í okkar hóp á Bernabeu. Í stuttu máli sagt, þá er það heiður að vera orðaður við Manchester United en það mun ekkert verða af því. Búið mál," sagði Sneijder á heimasíðu sinni í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert