Nottingham Forest hefur augastað á Heiðari Helgusyni og hyggst bjóða Bolton 1,5 milljónir punda, 245 milljónir króna, í hann að því er fram kemur í enskum fjölmiðlum í dag.
Heiðar gekk til liðs við Bolton frá Fulham síðastliðið sumar og gerði þriggja ára samning en hann var afar óheppinn með meiðsli á síðustu leiktíð og missti mikið úr vegna þeirra.
Nottingham Forest vann sér sæti í 1. deildinni í vor en þetta fornfræga félag hafnaði í öðru sæti í 2. deildinni.
Fleiri félög hafa sýnt Heiðari áhuga, þar á meðal Coventry, en knattspyrnustjóri þess er Chris Coleman. Heiðar var undir stjórn hans hjá Fulham.