Emmanuel Adebayor framherji Arsenal tilkynnti á fréttamannafundi í dag að hann ætlaði að halda kyrru fyrir hjá Arsenal en Tógómaðurinn hefur undanfarnar vikur verið sterklega orðaður við AC Milan og Barcelona.
Adebayor fór á kostum með Arsenal á síðustu leiktíð og skoraði 30 mörk en frá því tímabilinu lauk í maí hefur hann verið mikið í umræðunni og sagður á förum frá Arsenal líkt og Mathieu Flamini og Aliaksandr Hleb.
„Ég er leikmaður Arsenal og á þrjú ár eftir af samningi mínum. Það sem mestu máli skiptir fyrir mig er að halda áfram að hafa gaman af fótboltanum og ég verð hjá Arsenal,“ sagði Adebayor.