Rio Ferdinand fyrirliði Englands- og Evrópumeistara Manchester United er bjartsýnn á að Cristiano Ronaldo verði áfram í herbúðum félagsins og verður mættur til æfinga hjá liðinu þegar það hefur undirbúningstímabilið.
Ronaldo hefur frá því tímabilinu lauk í maí verið mikið í fréttum vegna hugsanlegra félagaskipta til Real Madrid en Spánarmeistararnir vilja ólmir fá Portúgalann frábæra og ekki hefur komið afdráttarlaust svar frá Ronaldo hvort hann vilji vera áfram hjá United eða fara til Real Madrid en hann er samningsbundinn ensku meisturunum til ársins 2012.
„Eins og allir þá vil ég fyrir alla muni að hann verði með okkur á næsta tímabili,“ sagði Ferdinand í viðtali við Sky Sport fréttastöðina. „Þegar við hefjum undirbúningstímabilið þá er er ég sannfærður um að Ronaldo verði með okkur. Ég hef rætt við hann og við höfum talað um allt annað en þessar vangaveltur. Ég vil leyfa honum að eiga við þetta í fríinu sínu en við allir viljum að okkar besti leikmaður verði um kyrrt hjá félaginu,“ segir Ferdinand.