Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Englands- og Evrópumeistara Manchester United, sagði í dag að hann reiknaði ekki með því að kaupa meira en einn leikmann til að styrkja sinn hóp í sumar.
„Nú eru stjórarnir komnir úr sumarfríum og það er hægt að ræða málin ef menn vilja. En ég á ekki von á því að kaupa meira en einn leikmann. Við erum með einn eða tvo í sigtinu þessa stundina. Menn halda að það sé auðvelt að kaupa menn nú á tímum en svo er alls ekki því peningarnir ráða öllu. Metnaðarfull félög vilja ekki selja sína bestu menn og það er ekki eins auðvelt og menn halda að krækja í þá, og við leitumst við að kíkja eftir yngri mönnum," sagði Ferguson við BBC í dag.
Manchester United eyddi rúmum 50 milljónum punda í leikmannakaup síðasta sumar og náði þá í Owen Hargreaves, Anderson, Carlos Tévez og Nani.