Amaury Bischoff, miðjumaður sem hefur verið í herbúðum þýska knattspyrnuliðsins Werder Bremen undanfarin þrjú ár, er genginn til liðs við Arsenal.
Bischoff er 21 árs og hefur aðeins spilað einn leik með aðalliði Bremen, í UEFA-bikarnum á síðasta ári, en hefur leikið mikið með varaliði félagsins í þýsku 3. deildinni. Hann er fæddur í Frakklandi en á portúgalska móður og eftir að hafa leikið með U18 ára landsliði Frakka ákvað hann að taka boði um að æfa með U20 ára liði Portúgala.
„Arsene Wenger hefur þekkt mig lengi og hefur trú á mér, og veit að hann getur notað mig í aðalliðið hjá sér. Hann hefur ekki sett neina pressu á mig og sagt mér að ég fái nægan tíma til að festa mig í sessi," sagði Bischoff við þýska blaðið Bild.
Klaus-Dieter Fischer, framkvæmdastjóri Bremen, sagði á vef félagsins að Bischoff hefði verið boðinn nýr samningur en hann hefði ákveðið að taka þeirri áskorun að fara til Arsenal.