Liverpool hefur gert Tottenham Hotspur tilboð í írska sóknarmanninn Robbie Keane og samkvæmt BBC er félagið tilbúið að láta enska framherjann Peter Crouch ganga uppí kaupin á honum.
BBC segir í frétt sinni að forráðamenn Liverpool óttist hinsvegar að Tottenham setji of hátt verð á Keane, um 20 milljónir punda, og þar með falli málið um sjálft sig.
Það er þó talið gefa Liverpool meiri von að Juande Ramos er yfirlýstur aðdáandi Crouchs og sé þar af leiðandi líklega tilbúinn til að láta Keane af hendi.
Keane er 28 ára og hefur spilað með Tottenham í sex ár en hann kom til félagsins frá Leeds á sínum tíma. Keane, sem skoraði 23 mörk á síðasta tímabili, er samningsbundinn Lundúnafélaginu í tvö ár til viðbótar.