Mourinho segist fá Lampard eftir ár

Frank Lampard verður kominn til Inter innan árs, samkvæmt Mourinho.
Frank Lampard verður kominn til Inter innan árs, samkvæmt Mourinho. Reuters

José Mourinho, þjálfari ítalska knattspyrnufélagsins Inter Mílanó, segist ekki reikna með því að Frank Lampard komi til liðsins frá Chelsea í sumar en hann sé 100 prósent viss um að hann verði kominn til Inter innan árs.

Fregnir voru um það um helgina að samkomulag hefði tekist um kaup Inter á Lampard en þær voru síðan bornar til baka. Mourinho hefur ekki farið dult með áhuga sinn á þessum snjalla miðjumanni sem var í lykilhlutverki undir hans stjórn hjá Chelsea frá 2004 til 2007.

Lampard á eitt ár eftir af samningi sínum við Chelsea og ekkert hefur komið útúr viðræðum hans við félagið um nýjan samning, enn sem komið er.

„Það verður auðveldara fyrir hann að koma til mín hjá Inter næsta sumar, ég er 100 prósent viss um að þá verður hann kominn hingað," sagði Mourinho við BBC í dag.

BBC segir jafnframt að þó Mourinho tali á þennan veg sé alls ekki loku fyrir það  skotið að Lampard fari til Inter á næstu vikum. Kaup Chelsea á Deco undirstriki það og nú sé það aðeins spurning hvenær Lampard fari til Ítalíu, ekki hvort af því verði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert