Aliaksandr Hleb, miðvallarleikmaður Arsenal eins og er, segir að samskipti sín við knattspyrnustjórann Arsene Wenger og spænska miðjumanninn Cesc Fabregas hafi ekki verið góð en flest bendir til þess að Hvít-Rússinn gangi til liðs við Barcelona á næstunni.
Hleb, sem hefur verið sterklega orðaður við Barcelona og einnig Ítalíumeistara Inter, segist hafa lent í orðaskaki við Wenger eftir að hann tjáði honum frá því að hann vildi yfirgefa Arsenal.
„Mín sýn á það hvernig ég á spila fótbolta féll ekki við skoðanir Wengers. Ég sagði honum frá því á síðustu leiktíð að ég vildi fara frá félaginu og hann komst í verulegt uppnám. En spyrjið hann. Það lítur út fyrir að hann sé ánægður að sjá mig fara,“ segir Hleb í viðtali við Daily Mirror.
„Ég veit hvar ég spila á næstu leiktíð en ég myndi kjósa að fara til Barcelona. Það hafa staðið yfir samningaviðræður og vonandi kemst þetta á hreint sem fyrst,“ segir Hleb og bætir því við að Fabregas sé eigingjarn.
„Þegar við fáum marktækifæri þá er Fabregas miklu eigingjarnari en ég. Þegar hann kemst í skotfæri þá lætur hann undantekningalaust vaða á markið en það geri ég ekki alltaf.“