Chelsea hefur hafnað fyrirspurn frá Ítalíumeisturum Inter í enska landsliðsmanninn Frank Lampard að því er Sky fréttastofan greindi frá í morgun. Fram kemur á heimasíðu Chelsea að félagið ætli ekki að fara út í neinar samningaviðræður við Inter um félagaskipti Lampards.
Jose Mourinho nýráðinn knattspyrnustjóri Inter hefur ekki farið leynt með að Lampard er efstur á óskalista sínum en þeir náðu afar vel saman þegar Portúgalinn var við stjórnvölinn hjá Lundúnaliðinu.
Lampard á eitt ár eftir af samningi sínum við Chelsea en þessi snjalli miðjumaður hefur skorað 110 mörk í 370 leikjum með liðinu en hann kom til Chelsea frá West Ham árið 2001.