Ronaldo frá í 10 til 12 vikur

Cristiano Ronaldo er á hækjum þessa dagana, eftir uppskurðinn.
Cristiano Ronaldo er á hækjum þessa dagana, eftir uppskurðinn. Reuters

Cristiano Ronaldo, portúgalski knattspyrnusnillingurinn hjá Manchester United, staðfesti í dag að horfur væru á því að hann yrði frá keppni í allt að 10 til 12 vikur, ekki sex vikur eins og áður hafði verið gefið út eftir að hann gekkst undir uppskurð á ökkla á dögunum.

Sé það rétt, verður hann ekki leikfær fyrr en í október en forráðamenn Manchester United höfðu gert sér vonir um að hann yrði tilbúinn um miðjan ágúst þegar keppni hefst í ensku úrvalsdeildinni.

Ronaldo, sem var í viðtali við portúgalska sjónvarpið, sagði jafnframt að það væri ekkert hæft í því að hann væri búinn að semja um kaup og kjör við Real Madrid eins og fullyrt hefur verið.

Hann lét hinsvegar hug sinn enn og aftur í ljós: „Þið vitið hvað ég hef sagt og hvað ég vil en ég veit ekki hvar ég mun hefja nýtt tímabil," sagði Ronaldo og kvaðst jafnframt sammála forseta FIFA, Sepp Blatter, sem sagði í dag að langtímasamningar leikmanna væru eins og nútíma þrælahald.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert